Hálendi og gróður í stað eyðimerkur sem einkennir önnur lönd Arabíuskagans, þúsund ára menning og listir. Ferðamannaparadís? Nei, örlög Jemens hafa orðið önnur. Styrjaldir, sú síðasta sem nú hefur staðið í þúsund daga hafa lokað landinu einkum fyrir mönnum eins og mér, með myndavél.

Flugvöllurinn í Sana’a, gömlu höfuðborg Jemens, hefur verið lokaður frá því átökin hófust, aðeins Sameinuðu þjóðunum er leyft að lenda hér með starfsfólk sitt og það með ströngum skilyrðum. Þegar fréttist að ég væri um borð og ætlaði að mynda fyrir mannréttindastofu Sameinuðu þjóðanna skipuðu Sádí Arabar vélinni að snúa við til Jórdaníu. Það þurfti samningaviðræður æðstu ráðamanna til að fá lendingarleyfið á ný.

Jemen

Hvar er Jemen?

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp hvar Jemen er staðsett. Landið er á sunnanverðum Arabíuskaga og á landamæri að Sádí-Arabíu og Óman. Það liggur við Rauðahaf og Adenflóa. Um 27 og hálf milljón manna búa í Jemen.

Jemen er frjósamt og hafa bændur þar í landi um árabil ræktað ýmsar kryddjurtir, kaffi og fleira. Í dag er stærstur hluti ræktarlands Jemens notaður til að rækta khat-lauf sem eru tuggin til að komast í væga vímu.

Margfaldir múrar og röð varðstöðva eiga að verja gististað og skrifstofu Sameinuðu þjóðanna líkt og aðrar opinberar stofnanir í höfuðborginni fyrir árásum. Hér ferðast starfsmenn Sameinuðu þjóðanna aðeins um á brynvörðum bílum og í vopnaðri fylgd í bak og fyrir.

Daginn áður en ég kom til borgarinnar kváðu sjö sinnum við drunur loftárása ýmis skotmörk. Í Sana’a búa íbúarnir við slíkt sprengjuregn hvenær sem er og að því er virðist á næstum því hvað sem er.

Meðal fallinna í árásinni á þetta íbúðarhverfi eru sjö börn og þrjár konur. Eftirlitsmenn mannréttindastofu Sameinuðu þjóðanna sem ég er í samfloti með finna engan hernaðarlegan tilgang með árásinni.

Það eru Sádí Arabar sem standa að baki loftárásunum á Jemen með bandarískum vopnum. Og í raun ráða Sádi Arabar lögum og lofum í landinu með herkví sinni. Sameinuðu þjóðirnar tilkynna Sádí Aröbum um allar sínar ferðir hér til að forðast sprengjuregn þeirra.

Sameinuðu þjóðirnar þurfa líka að afhenda Sádí Aröbum farþegalista áður en flugvélar þeirra fá að lenda í Jemen og í raun eru tök Sádí Araba svo sterk að margir af sendiherrum Jemens sitja nú í Ryad frekar en í Sana’a þar sem engu virðist eyrt jafnvel ekki aðaleinkenni borgarinnar aldagömlum leirhúsum sem er húsagerð á heimsminjaskrá og því stríðsglæpur að eyða.

„Þeir sprengdu allt. Þarna voru 10 börn. Það er allt ónýtt,“ segir Amnah Al Hamami, íbúi í Sana. „Hér lá einn, þarna annar. Einn særðist á fæti, hinn á baki. Við fórum aftur inn að leita að fjölskyldunni, en það voru allir dánir.“

Aðeins einn af sonum Amnah lifði árásina af.

„Það bjargaði mér að ég var ekki í húsinu. Þegar ég kom til baka var húsið hálf fallið og faðir minn og bróðir látnir. Ég þakka guði fyrir að vera á lífi. Ég særðist bæði á höfði og á baki,“ segir Yahya Al Hamami, sonur hennar.

Jubran

Jubran Eidhah Jubran er einn af þeim tug þúsundum sem særst hafa síðan átökin og loftárásirnar í Jemen hófust fyrir tæpum þremur árum. Talið er að tíu þúsund hafa fallið. Helmingur þeirra almennir borgarar. Og tugþúsundir eru á hrakhólum.

„Flugskeytið klauf húsið okkar í tvennt. Lík bróður míns, konu hans og barna fundust þarna við kjörbúðina. Ég, konan mín og foreldrar lentum aftur á móti þarna við bensínstöðina. Ég einn lifði af.“

Opinberlega beinast loftárásir Sádi Araba og bandamanna þeirra einkum Kúveit og Sameinuðu Arabísku Furstadæmanna gegn Hútí uppreisnarmönnum úr norðri sem hröktu nýjan forseta Jemens frá höfuðborginni fyrir þremur árum og hafa haldið henni síðan.

Saleh, fyrrverandi forseti, sem arðrændi þjóð sína í 33 ár og var vikið til hliðar í kjölfar arabíska vorsins gekk upphaflega til liðs við uppreisnarmennina gegn nýja forsetanum eða þar til skarst í odda með þeim og uppreisnarmenn myrtu þennan fyrrverandi einræðisherra í síðasta mánuði.

Jemen

Kaffið barst um heiminn frá Jemen

Vera Illugadóttir fjallaði um sögu Jemens í útvarpsþáttunum Í ljósi sögunnar. Þar skoðaði hún sögu landsins allt frá því á dögum Gamla testamentisins og fram á sextándu öld, en í þeirri viðburðaríku sögu lék kaffið mikilvægt hlutverk. Þú getur hlustað á þáttinn hér.

Þrátt fyrir sprengjuregnið hafa uppreisnarmenn Húta náð að halda höfuðborginni en tilraunir þeirra til að taka landið allt hafa hins vegar verið brotnar á bak aftur af Sádí Aröbum og bandamönnum þeirra. Stríðið í Jemen er því í pattstöðu og íbúarnir sem telja 27 milljónir eru í raun gíslar í eigin landi í herkví og stríði sem er að þróast í stórveldadeilur Írana, sem styðja shia trúbræður sína í norðri annars vegar og Sádí Araba og sunníta hernaðarbandalags þeirra hins vegar.

Í einni árásinni féllu hér 132 útfarargestir og nær sjö hundruð særðust þegar þetta samkomuhús varð þessum blóðugu átökum að bráð.

En það eru ekki aðeins loftárásir sem fylla sjúkrahúsin hér. Hafnbannið veldur skorti, farsóttum, atvinnuleysi og verðlagi sem enginn ræður við.  Börn svelta og stór hluti þjóðarinnar er háður neyðaraðstoð sem berst af skornum skammti.

Handan víglínunnar í Aden, höfuðvígi útlagastjórnarinnar í Suður-Jemen er annað ástand. Tíð hryðjuverk og götubardagar á milli hina ólíku fylkinga vígamanna og öfgahópa, sem skipt hafa borginni á milli sín í skjóli stjórnleysis.

Aftur förum við því hvergi nema í vopnaðri fylgd í bak og fyrir enda hryðjuverk, mannrán og tilræði hér allt að daglegur viðburður. Jafnvel Seðlabankinn hér var rændur á dögunum. Þetta er gósenland skæðasta arms Al Qaeda og annarra hryðjuverkahópa.

Þessi fallega hafnarborg er enn í sárum eftir að Hútí uppreisnarmenn úr norðri náðu henni á vald sitt en misstu hana á ný eftir fjögurra mánaða blóðug átök við Sádí Araba og bandamenn þeirra í júlí 2015. Borgin er nú aðsetur útlagastjórnar Hadi forseta sem situr hér nær valdalaus undir verndarvæng Sádí Araba.

Fánarnir sem blasa við í borginni eru jafn fjölbreyttir og hóparnir sem skipta henni á milli sín. Hvarvetna eru varðstöðvar og vegatálmar sem erfitt er að greina á milli.

Jubran

Reynt hefur verið að ráða yfirmann þessara öryggissveita af dögum oftar en tölu verður á komið.

Því er eðlilegt að hann sé var um sig þegar ég slæst í för með fulltrúum Mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna er þeir halda á hans fund til að taka púlsinn á ástandinu í Aden.

Varðsveit fylgir okkur að ónefndu húsi, hershöfðinginn kemur þar í fylgd annarrar varðsveitar og hverfur svo á brott jafn skjótt og hann kom. Tveimur dögum síðar var reynt að ráða hann af dögum enn á ný.

Þegar ég var síðast að kvikmynda hér í Aden fyrir 10 árum gisti ég á Mercure hótelinu sem vart tekur við ferðamönnum á ný á næstunni.  Þá var það önnur vá sem steðjaði að þessu svæði. Hingað streymdu bátar með þúsundum flóttamanna frá Sómalíu. Eins og þessi stúlka komust margir þeirra ekki lifandi á leiðarenda. Þeir sem lifðu af eru nú margir að flýja til baka úr einu stríði í annað.

Því lífsbaráttan hér er hörð fyrir þá sem eftir sitja.

„Ég er bara að flytja sand á milli fyrir 200 krónur á dag. Ég er með meistaragráðu í tölvunarfræði en ég hef ekki fundið annað að gera en að selja Khat lauf.“

Líkt og í Sana’a er hvorki vatn né rafmagn á borginni bara Khat lauf sem líkt og um aldir virðist enn besta meðalið við raunum stríðsins. Ég fæ vopnaða fylgd til að skoða mig um stund um í miðbæ Aden. Bæjarins sem upplifað hefur hver átökin og hvert stórveldið af öðru í aldanna rás á þessum eftirsótta stað við innsiglinguna í Rauðahafið.  Og ýmist auðlegð eða örbirgð eftir því hvernig vindarnir blása.

Jubran

Nú er borgin og landið allt algjörlega háð utanaðkomandi aðstoð, sem reynt er að flytja til landsins þrátt fyrir hafnbannið. Skipið sem kemur með neyðarnæringu fyrir börnin er reyndar líka okkar gististaður. Öryggisins vegna er því siglt út á ytri höfnina og lagt þar við akkeri á hverri nóttu.

Það er líka eina farartækið sem flutt getur mig héðan yfir Rauða hafið til Djibouti þegar ég yfirgef þetta gleymda og stríðshrjáða land á ný.

Hver er Jón Björgvinsson?

Jón Björgvinsson er fréttamaður sem í áratugi hefur unnið bæði fyrir Ríkisútvarpið og ýmsa alþjóðlega fjölmiðla. Fáðu að vita meira um Jón.